Um Salún

Salún er íslenskt hönnunarfyrirtæki sem var stofnað í lok árs 2023 af hönnuðinum Ásrúnu Ágústsdóttur. Bakgrunnur Ásrúnar liggur í fatahönnun sem hún nam í Kaupmannahöfn og við Listaháskóla Íslands.

Kveikjan að Salún er dálæti Ásrúnar á salúnvefnaðnum. Salúnvefnaðurinn á sér djúpar rætur í menningu þjóðar og má finna í heimildum aftur til 14. aldar en orðið salún merkir ábreiða. Salúnvefnaður naut mikilla vinsælda á Íslandi á seinnihluta síðustu aldar og voru salúnofnar ullarábreiður meðal annars framleiddar á vegum Álafoss og SÍS. Fljótlega eftir að SÍS lagði upp laupana var allri vefnaðarframleiðslu hætt og að lokum voru allir iðnaðarvefstólar seldir úr landi. Fyrir vikið hefur þekkingu á Salúnvefnaði skiljanlega farið stórlega hrakandi og vefnaðurinn aðeins ofinn af einstaka manneskjum um landið. Í dag má því helst finna salúnvefnað á minjasöfnum, í Bústaðakirkju eða á nytjamörkuðum víðsvegar um landið.

Salúnvefnaður er ofinn þannig að munsturband (yfirband) liggur á einskeftugrunni og myndar munstur sem eru einkennandi fyrir þennan vefnað. Þar sem munsturbandið liggur ofan á vefnaðinum á salúnvefnaður það til að vera viðkvæmur og því ekki æskilegt að hafa munstrin of stór. Með því að hafa vörurnar okkar ofnar með Jacquard vefnaði er okkur kleift að leika með skala munsturseininganna og stækka hverja munstureiningu mun meira en í hefðbundnum salúnvefnaði.

Markmið Salún er að hanna vörur sem gera menningu þjóðarinnar hátt undir höfði, viðhalda hugmyndafræði á aldagömlum vefnaði sem og einstakri sundmenningu.